Efst á baugi

Fundir WA á Íslandi

Við höldum fundi vikulega þar sem öll eru velkomin:

Mán. 13:00-13:45  Fundurinn fer fram á Zoom (vefslóð)  (lykilorð: 1212)

Mán. 17:00-18:00 Tjarnargata 20, 101 Reykjavík (Salur A á neðri hæð)

Þri. 21:00-22:00  Fundurinn fer fram á Zoom (vefslóð)  (lykilorð: 1212)

Þið getið einnig sent okkur tölvupóst á netfangið vinnufiklar@gmail.com ef þið viljið fá frekari upplýsingar eða jafnvel hitta okkur utan þessa opinbera fundartíma.

Alþjóðleg vefsíða Workaholics Anonymous er á vefslóðinni workaholics-anonymous.org

Hér er listi yfir nokkra erlenda síma- og zoom fundi sem passa við íslenskan tíma.

Aðeins um vinnufíkn:

Vinnufíkn getur birst í ýmsum myndum, svo sem áhyggjur og þráhyggja vegna vinnu, ólaunaðra verkefna eða áhugamála. Einnig er frestunarárátta eða fullkomnunarárátta sem gengur út í öfgar algeng vandamál. Vinnufíkill getur haft blöndu af þessu eða aðrar birtingarmyndir sem bitna á heilsu og samskiptum og taka upp tíma sem annars yrði uppbyggilegur. Þessi fíkn getur einnig valdið kulnun í starfi og einkalífi.

Vinnufíklar í Workaholics Anonymous sækjast eftir jafnvægi milli vinnu, einkalífs og umhyggju fyrir sjálfum okkur. Með því að byrja í prógramminu öðlumst við frið og æðruleysi og lækkum niður í rödd þráhyggjunnar sem veldur því að einbeitingin er á vinnu og verkefni. Við bjóðum ykkur að taka þátt í batagöngunni með okkur!

Einkenni vinnufíknar

1. Það er mjög erfitt fyrir okkur að slaka á. Oft, ef ekki alltaf, finnst okkur við þurfa að klára bara nokkur verk áður en við getum verið ánægð með okkur og leyft okkur að slaka á. Þegar við höfum lokið þessum verkum finnum við nokkur í viðbót sem við þurfum að ljúka, og svo nokkur í viðbót… Þessi óstjórnlega löngun leiðir oft til örvæntingarfullrar og stjórnlausrar vinnu. Við erum vanmáttug gagnvart þessu mynstri.

2. Við erum svo vön að gera það sem ætlast er til af okkur að við vitum oft ekki hvað það er sem við viljum og þurfum að gera fyrir okkur sjálf.

3. Oft finnst okkur að við verðum að klára ákveðin verkefni, jafnvel þó við viljum það ekki, samt erum við of hrædd til að hætta.

4. Við verðum oft gröm yfir því að verða að klára verkefni þegar við vildum frekar slaka á og leika okkur. Á þessum stundum slórum við, veltum okkur upp úr sjálfsvorkunn og dæmum okkur. Við festumst í „fúlum hugsunum“, getum ekki einbeitt okkur að verkinu en erum samt of óttaslegin til að stoppa um stund og gefa okkur það rými sem við þurfum.

5. Tilfinning okkar fyrir sjálfsvirðingu byggist að stórum hluta upp á skynjun okkar á hvernig aðrir dæma afköst okkar í vinnu og á öðrum sviðum lífs okkar.

6. Okkur finnst við annaðhvort vera gáfaðasta og hæfasta fólk sem við þekkjum eða að við séum óhæf og einskisnýt.

7. Það er erfitt fyrir okkur að sjá okkur heiðarlega og viðurkenna hver við erum í raun.

8. Við svíkjum oft sjálf okkur með því að láta undan kröfum fólks sem við upplifum að hafi „vald“.

9. Við störfum út frá smá-krísu ástandi sem við notum til að komast hjá því að upplifa sannar tilfinningar.

10. Við upplifum sjaldan æðruleysi.

11. Við þráum að skilja allt í lífi okkar, þar á meðal hverja tilfinningu. Við leyfum okkur ekki að upplifa tilfinningar sem við skiljum ekki af ótta við að missa stjórn.

12. Við erum með undirliggjandi ótta um að ef við gefumst upp á að stjórna og hleypum tilfinningum okkar upp á yfirborðið verðum við vitfirrt það sem eftir er.

13. Við dæmum okkur út frá afrekum okkar og erum haldin þeirri blekkingu að við verðum alltaf að vera að afreka eitthvað mikilsvert til að vera ánægð með okkur.

14. Við getum ekki sest niður og bara verið.

15. Við tökum oft stífar vinnutarnir með þá blekkingu að við þurfum hrós frá samstarfsfélögum og yfirmönnum til að líða vel.

16. Við trúum þeirri blekkingu að fólki muni líka betur við okkur ef við lítum útfyrir að vera hæfari en við erum í raun.

17. Þegar okkur er hrósað af öðrum finnst okkur oft að við séum ekki verðug hrósinu og gjaldfellum okkur.

18. Við höfum tilhneigingu til að taka að okkur meira en við komumst yfir í þeirri trú að fólki líki betur við okkur ef við getum gert meira og gert það hraðar.

19. Við erum oft óheiðarleg um fyrri reynslu okkar og núverandi hæfileika, leitumst við að minnast ekki á mistök og ýkja velgengni. Við trúum því að fólk muni ekki virða okkur eða líka við okkur eins og við erum í raun.

20. Okkur líður ekki vel.

Verkfæri Workaholics Anonymous

Að hlusta

Við setjum til hliðar – á hverjum degi – tíma fyrir bæn og hugleiðslu.  Áður en við samþykkjum skuldbindingu biðjum við æðri mátt og W.A. félaga um leiðsögn.

Forgangsröðun

Við veljum hvað er mikilvægast að gera fyrst. Stundum er það að gera ekkert.  Við stefnum að því að vera sveigjanleg gagnvart óvæntum atburðum og endurskipuleggja forgangsröðun okkar eftir því sem við á.  Við lítum á truflun og óhöpp sem möguleika á vexti.

Innáskipting

Við setjum ekki ný verkefni á dagskrá án þess að taka út annað sem tekur svipaðan tíma.

Vanáætlun

Við ætlum okkur meiri tíma en við teljum nauðsynlegan í verkefni eða ferðir og bjóðum þannig upp á þægilegan möguleika á hinu óvænta.

Leikur

Við áætlum tíma í leik, neitum okkur sjálfum um það að vinna án þess að stoppa.  Við gerum ekki leikinn að vinnuverkefni.

Einbeiting

Við reynum að gera einn hlut í einu.

Hraði

Við vinnum á þægilegum hraða og hvílumst áður en við þreytumst.  Sem áminningu þá skoðum við orkustig okkar áður en farið er í næstu athöfn.  Við verðum ekki upptekin við vinnu okkar, því þá neyðumst við ekki til þess að ná okkur niður aftur.

Afslöppun

Við hvorki gefum okkur á vald spennu frá öðrum né reynum að pressa aðra.  Við erum á verði gagnvart fólki og aðstæðum sem framkalla tilfinninguna um álag í okkur sjálfum. Við verðum vör við okkar eigin aðgerðir, orð, líkamsviðbrögð og tilfinningar sem segja okkur að við séum að bregðast við pressu.  Þegar við finnum orku byggjast upp, stoppum við, tengjumst aftur okkar æðri mætti og öðrum í kringum okkur.

Samþykkja

Við samþykkjum útkomu þess sem við gerum, hver sem úrslit þess eru eða tími.  Við vitum að óþolinmæði – það að æða inn og krefjast fullkominna úrslita – hægir aðeins á bata okkar.  Við erum umburðarlynd gagnvart okkur sjálfum og vitum að hinn nýi lífstíll okkar þarfnast mikillar æfingar.

Spyrja

Við viðurkennum veikleika okkar og mistök.  Við uppgötvum að við þurfum ekki að gera allt sjálf og biðjum æðri mátt og aðra um hjálp.

Fundir

Við stundum fundi W.A. til þess að læra af félögum og deila eigin reynslu, styrk og von hvert með öðru.

Sími

Við notum síma til þess að vera í tengslum við félaga á milli funda.  Við ræðum við W.A. vini fyrir og eftir stórar ákvarðanir.

Koma á jafnvægi

Við komum á jafnvægi milli vinnu okkar og viðleitni til að þróa persónuleg sambönd, andlegan þroska, sköpun og gleðileg viðhorf.

Þjónusta

Við bjóðum okkur fram að hjálpa öðrum vinnufíklum, vitandi að stuðningur við aðra eykur gæði eigin bata.

Lifa í núinu

Okkur verður ljóst að við erum þar sem æðri máttur kýs að hafa okkur – í núinu.  Við reynum að lifa í hverju augnabliki í æðruleysi, gleði og þakklæti.